Greinar

Hjalti Þór Björnsson

portrait hjalti b

Vogur 30 ára

Þann 28. Desember 2013 verða liðin 30 ár frá vígslu sjúkrahússins Vogs. Allir sem til þekkja vita að opnun Vogs á þeim tíma markaði tímamót í mótttöku og meðferð áfengissjúkra á Íslandi. Sjúkrahúsið var hannað frá upphafi fyrir þá starfsemi sem þar átti að fara fram, afeitrun, greining og byrjandi meðferð við bestu mögulegar aðstæður. Þjóðin hafði sameinað krafta sína og lagt þessu góða verkefni lið að byggja yfir starfsemi SÁÁ. Fram til ársins 1999 þjónaði húsið tilgangi sínum og þúsundir Íslendinga byrjuðu nýtt líf á Vogi. 

Breytingar á neyslu sjúklinganna og aldurssamsetning hópsins ollu því að nauðsynlegt var að endurhanna hluta hússins og byggja við álmu fyrir þá sem yngstir voru. Samfélagslegar breytingar og kröfur um aðbúnað sjúklinga ásamt því að aðstaða starfsmanna var löngu úr sér gengin. Framkvæmdastjórn samtakanna var þetta vel ljóst og því var ráðist í endurbætur og viðbyggingu við sjúkrahúsið Vog og var því verki lokið árið 2000. Það ár opnaði unglingadeild Vogs ásamt nýrri álmu sem hýsir skóla SÁÁ fyrir heilbrigðisstarfsmenn og hluti starfsmanna fékk aðstöðu þar. Fólk sem skildi þörfina á bættu húsnæði lagði þessu góða málefni lið og aftur voru samtökin komin með starfsaðstöðu sem var nútímaleg og hentaði því sem verið var að gera þá.

Frá þeim tíma sem liðinn er frá endurbótunum á Vogi árið 2000 hefur  starfsemin tekið miklum breytingum. SÁÁ tekur þátt í alþjóðlegum rannsóknum sem útheimtir bæði starfsfólk og aðstöðu. Félagslegur vandi þeirra sem koma í meðferð vex og því hefur verið bætt félagsráðgjafa í starfsmannahópinn. Hluti sjúklinganna verður sífellt veikari og þurfa þess vegna meira næði og meiri ummönnun í afeitrun. Viðhaldsmeðferð er stunduð á Vogi og er hún eitt mesta framfaraspor sem orðið hefur í lækningum ópíumfíkla sem nánast voru vonlausar áður. Tugir einstaklinga eru í dag í bata og í framför. 

Samlegðaráhrif alls þessa eru þau að enn og aftur þurfum við að bregðast við og aðlaga húsin okkar að breyttum veruleika. Framkvæmir eru hafnar á viðbyggingu sem mun stórbæta aðstöðu vaktarinnar á Vogi. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar munu fá aukið rými og stórbætta aðstöðu til að sinna mikilvægum störfum sínum ásamt því sem nýja álman mun hýsa veikust sjúklingana sem þurfa meiri ummönnun.

Það er því bjart yfir starfssemi SÁÁ þó skorið hafi verið niður til starfsseminnar undanfarin ár. Það ber fyrst og fremst að þakka velvilja og hlýhug þjóðarinnar sem enn og aftur birtist í ríkulegum framlögum til þessa nýja verkefnis SÁÁ.  Áfram Vogur og takk Íslendingar fyrir að sýna SÁÁ og Vogi í verki hvers þið metið starfsemina.

Höfundur er dagskrárstjóri hjá SÁÁ og hefur starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi í 27 ár

Geðrænn vandi ungmenna - og ný greiningartækni
 

Þessi grein birtist fyrst í SÁÁ blaðinu í maí 2008. Í greininni er fjallað um nýtt stafrænt geðgreiningartæki fyrir ungmenni og þátttöku SÁÁ í þróun þess og staðfærslu á Íslandi.

Mörg þeirra ungmenna sem koma til vímuefnameðferðar hjá SÁÁ á Vog, glíma við annan meginvanda en vímuefnafíknina. Þau eru vissulega í vanda vegna vímuefnaneyslu, vanda sem verður að leysa, en oft glíma þau líka við einhvern annan geðrænan vanda.

Margir þekkja hve Barna og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, er illa í stakk búin til að mæta þörfum allra barna sem þurfa hjálp vegna geðrænna kvilla. Biðlistar þar hafa verið langir og stjórnvöld hafa reynt að koma á fót neyðarlausnum til að minnka vandann.

Í aldarfjórðung hefur verið í notkun í Bandaríkjunum geðgreiningarviðtal fyrir börn 9 til 18 ára, nefnt DISC. Þetta viðtal, sem er tölvukeyrður staðlaður spurningalisti, er nú í notkun víða um lönd, meðal annars á Spáni, Þýskalandi, Hollandi og í Kína. Hin langa reynsla af viðtalinu og hin útbreidda notkun þess eru meðmæli með þessu greiningartæki.

Meginkostir viðtalsins eru tveir. Annarsvegar tekur viðtalið yfir marga sjúkdómsgreiningarflokka, það nær yfir 34 algengustu geðgreiningar hjá börnum. Þannig er tryggt að skimað sé eftir fleiri einkennum en þeim sem augljósust kunna að vera í hefðbundnu viðtali. Hinn meginkosturinn er að ekki þarf hámenntaða og langskólagengna geðlækna, sem kosta mikið, til að taka viðtalið. Þeir sem taka viðtalið eru sérþjálfaðir en þurfa ekki að búa að klínískri menntun.

Það blasir því við að með notkun þessa tækis væri hægt að fjölga þeim sem skima fyrir geðrænum vanda hjá börnum. Sú skimun gæti farið fram víða í heilsugæslunni og í skólakerfinu. Þannig mætti stytta biðlista á Bugl og veita aðstoð fyrr og markvissar en áður hefur verið gert.

Undir forystu Helgu Hannesdóttur, prófessors í geðheilbrigðisfræðum við Háskóla Íslands hefur verið ráðist í það stórvirki að þíða og staðfæra DISC viðtalið á Íslensku. Sú vinna er viðamikil og hefur staðið yfir í nokkur ár, enda eru um þrjú þúsund spurningar í viðtalinu öllu, þó hver einstaklingur svari aldrei svo mörgum spurningum.

Svona stórvirki verður ekki unnið án víðtækrar samvinnu og kostunar. Í þessu verkefni hafa nokkrir aðilar lagt saman krafta og fé og er SÁÁ þar á meðal. Samtökin hafa styrkt vinnuna fjárhagslega og lagt þróuninni lið með prófunum og yfirlestri.

Núna standa lokaprófanir á viðtalinu yfir hjá SÁÁ. Innan skamms verður hægt að þjálfa starfsfólk samtakanna til að nota þetta tæki og stuðla þannig að því að þau ungmenni sem leita á Vog fái undantekningarlaust tilvísanir í úrræði við hæfi.

Það er einnig mikill og stórhuga áhugi í forystusveit SÁÁ til að nota þetta viðtal í rannsóknarskyni, en DISC viðtalið var upphaflega þróað til þess.

Ég hef notið þeirra forréttinda að taka örlítinn þátt í þróunarvinnunni við DISC viðtalið og hef eins og margir aðrir þá trú að það muni valda svipaðri byltingu á Íslandi fyrir forvarnir, rannsóknir og greiningu í barna- og unglingageðlækningum og það hefur gert víða annarsstaðar. Það er ánægjulegt að fá að koma að svona verkefni og það er ánægjulegt að verða vitni að því þegar fagfólk sameinar krafta sína og yfirburðaþekkingu til að leysa stóran og þjóðfélagslegan vanda með skipulögðum og hagkvæmum hætti.

Hörður Svavarsson

„Það er alveg ljóst að fólk með geðsjúkdóma er í mikilli áhættu á að ánetjast lyfjum. Áfengissýki og lyfjafíkn eru tíð hjá þessu fólki vegna þess að það er að nota lyf sem eru ávanabindandi. Lyfin sem það þarf að taka gegn sínum geðsjúkdómum eru oft þau lyf sem leiða til fíknar.“ segir Hjalti Björnsson áfengisráðgjafi hjá SÁÁ og dagskrárstjóri á meðferðarheimilinu Vogi.

Hjalti segir að það komi mikið af ungu fólki inn á Vog sem þarf að hitta geðlækni og þá eru einkenni geðsjúkdóma að koma í ljós hjá þeim í fyrsta skipti. „Það er mjög mikið af einstaklingum að greinast í fyrsta sinn hér inni en þeir eru þá að koma í vímuefnameðferð. Geðsjúkir eru mikill áhættuhópur því þeir eru veikir fyrir og lenda oft til hliðar og þá er mikil hætta á að þeir lendi inn í fíklahópum. Ef að menn eru að fá geðræn einkenni ungir og eiga erfitt í skóla þá gerist þetta.“

Að sögn Hjalta er mikil áhætta fólgin í því að vera fíkill með geðsjúkdóm; „Fólk er að taka lyf við geðrænum einkennum og ef það er ekkert haldið utan um það þá getur það lent í óreglu. Neysla er í raun smitandi, fólk hefur sinn félagsskap hvert af öðru, það er kannski ekki að vinna vegna sjúkdómana og fer að drepa tímann saman með óreglu, þá verður þetta óviðráðanlegt.“ Geðræn einkenni af völdum vímuefna
Hjalti segir að séu einstaklingar veikir fyrir geti vímuefnaneysla sett af stað geðsjúkdóma. „Maður sér það á einstaklingum sem eru veikir fyrir að vímuefni geta oft brotið veika skurn.“ Ef heilbrigður einstaklingur er í vímuefnaneyslu getur hann fengið geðræn einkenni af völdum hennar en það þýðir ekki að hann sé með geðsjúkdóm. Að sögn Hjalta geta ákveðin fíkniefni leitt til geðrænna einkenna. „Kannabisefni eins og hass og marijuana gerir fólk sljótt og þunglynt. Örvandi efni láta fólk fá ranghugmyndir, gera það tortryggið og það fæ ofsóknarhugmyndir. E-pilla, kókaín og amfetamín eru þau örvandi efni sem eru vinsælust og valda einkennum geðveiki. En þegar þetta heilbrigða fólk hættir að nota efnin þá ganga þessi einkenni til baka sem þýðir að það er ekki með geðsjúkdóm. Maður hefur séð að foreldrar fara með unglinga, sem eru með þessi einkenni fíkniefnaneyslu, til læknis og fá geðlyf við þeim. Auðvitað gengur það aldrei upp því það er verið að reyna að meðhöndla afleiðingar vímuefnaneyslu með geðlyfjum. Þetta fólk kemur svo inn á Vog og þá kemur í ljós að það er ekkert að því annað en fíkn.“Enginn geðlæknir á Vogi
En hvaða ferli fer í gang á Vogi þegar einstaklingur kemur í vímuefnameðferð og á við bága geðheilsu að stríða? „Árum saman höfðum við geðlækni í föstu starfi en það var skorið svo mikið niður að við urðum að segja honum upp. Núna þurfum við að kalla til sérfræðing í ráðgjöf ef grunur er um geðsjúkdóm. Stundum fer fólk þá inn á geðdeild. Mjög margir sem koma hingað inn eru með áður greinda geðsjúkdóma og eru í tengslum við geðlækna eða endurhæfingu og þá hvetjum við þá til að halda því samstarfi áfram.
En vegna óreglu hefur fólk kannski ekki verið í tengslum við sinn lækni í langan tíma og þá komum við þeim tengslum á aftur. Það kemur líka vikulega barna- og unglingageðlæknir hingað og talar við þá unglinga sem þurfa á því að halda og stundum er niðurstaða hans að þeir þurfi á geðmeðferð að halda. Annars er bara kallað í geðlæknana eftir þörfum.“

Áhyggjur Hjalta eru þær að þeir á Vogi geti ekki almennilega þjónað þeim sem eru með geðsjúkdóma vegna skorts á fjármagni og úrræðum. „Við sjáum mikið af þessu fólki á götunni. Bati hjá svonum einstaklingum er mjög hægur og erfiður og föll eru mjög algeng og viðbrögðin eru oft þau að vísa fólki úr húsnæði sem er engin lausn því fólkið hverfur ekki. Við reynum að fylgja þeim, sem fara héðan út, eftir þannig að það sé farið af stað ferli sem heldur utan um einstaklinginn úti í samfélaginu.“Þurfa mikla aðstoð alla ævi
Hjalti segir suma koma aftur og aftur í meðferð og ná litlum árangri. Þá er í lang flestum tilfellum um erfiðan geðsjúkdóm að ræða og bati verður oft seinn og hægur.
„Langflestir fíklarnir sem koma hingað eru ekki með geðsjúkdóma. Flestir hérna ná árangri mjög fljótt en við sitjum alltaf með einhverja sem ná ekki árangri. Það er mjög misjafna hvað fólki gengur vel og fólkið sem kemur hingað aftur og aftur er enginn baggi á þjóðfélaginu. Ef að þjóðfélagið hefur ekki efni á að hugsa um minnstu meðbræður sína þá fer maður að efast um þau gildi sem það stendur á. Geðsjúkdómar eru margir erfiðir og illvígir og það er enginn varanlegur bati til við þeim, menn eru bara með þetta og við eigum ekki að vísa því fólki í burtu. Þótt að þetta fólk nái ekki sama árangri og aðrir þá er það ekki ómerkilegra eða minna virði. Það þarf ákveðna hæfileika til að fara í gegnum svona meðferð og breyta sínu lífi, skipta um félagsskap og lifnaðarhætti. Sumir hafa ekki getu til þess.“

Hjalti er á því að heilbrigðskerfið sé að bregðast geðsjúkum með því að þrengja að og loka deildum. „Þar sem geðsjúkir fá aðhlynningu og hvatningu er hægt að halda þeim stöðugum. Þetta er ekki átaksverkefni sem stendur yfir í stuttan tíma heldur er þetta eitthvað sem þarf að huga að alla ævi, mér finnst fólk oft missa áhugann og úthaldið og yfirgefa þetta fólk of snemma. Ég vil eyða mínum skattpeningum í að hlúa að þeim sem þurfa á því að halda, það á að vera forgangsatrið. Mér finnst of mikið um það að við séum að ætla þessu fólki að standa sig, að allir einstaklingar séu það sterkir að þeir geti bjargað sér sjálfir við litla aðstoð, en geðsjúkir þurfa mikla aðstoð alla ævi,“ segir Hjalti að lokum.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

Miðvikudaginn 22. mars síðastliðinn fóru fram umræður á háttvirtu Alþingi Íslendinga um áfengisráðgjafastarfið. Tilefni umræðnanna var fyrirspurn frá Valdimari L. Sveinssyni alþingismanni til heilbrigðisráðherra um hvernig þessum málum er háttað. Þessi umræða er löngu tímabær og að því er mér sýnist lagalega aðkallandi, því samkvæmt 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, segir að landlæknir eigi að hafa eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Einnig segir í 36 gr. sömu laga að ráðuneytið skuli í samvinnu við menntamálaráðuneytið, Háskóla Íslands, landlækni og hin ýmsu stéttarsamtök heilbrigðisstarfsmanna, eftir því sem við á, stuðla að aukinni þekkingu og endurbót á grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstarfsmanna í samræmi við þarfir landsmanna á hverjum tíma. Skal það enn fremur í samvinnu við ofangreinda aðila stuðla að viðhaldsmenntun heilbrigðisstarfsmanna. 

Það kann því að skjóta skökku við að engar eru reglurnar um störf áfengisráðgjafa og hverjar kröfur eru gerðar til menntunnar þeirra. Hvernig á að líta eftir einhverju sem enginn veit hvað er? Er það raunverulegur vilji okkar?

Það er eindregin ósk allra í FÁR og nauðsynlegt til gæðastýringar í heilbrigðiskerfinu að settar verði reglur um þær kröfur þær sem gerðar eru til þeirra sem kalla sig áfengis og vímuefnaráðgjafa. Þessar kröfur þurfa að ná til menntunnar, starfsreynslu og handleiðslu. Reglurnar þurfa einnig að vera skýrar um það hverjir eru hæfir til að sjá um kennsluna.

Frá upphafi hefur það verið eitt af markmiðum félags áfengisráðgjafa að auka þekkingu og færni áfengisráðgjafa og efla fagmennsku þeirra. Einnig er FÁR sameiginlegur vettvangur félagsmanna til að vinna að því að minnka fordóma og auka skilning í íslensku þjóðfélagi gagnvart fíknisjúkdómum.
Félag áfengisráðgjafa hefur á undanförnum árum ítrekað lagt til við bæði heilbrigðisráðherra og landlækni að starfsheiti áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði löggilt af heilbrigðisráðherra en eins og þessum málum er nú háttað eru engar formlegar kröfur gerðar til þeirra sem vilja kalla sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Hver sem er getur kallað sig áfengis og vímuefnaráðgjafa.

Fyrir þá sem eiga við áfengis- eða vímuefnavandamál að stríða skiptir þjónusta áfengisráðgjafa miklu máli, sömuleiðis fyrir fjölskyldur þeirra, og raunar þjóðina alla. Tilgangurinn með því að setja lög um starfsréttindi þessara aðila er m.a. að vernda þá sem leita eftir þjónustu áfengisráðgjafa. Að þeir geti gengið að því vísu að sá sem kallast áfengis- og vímuefnaráðgjafi hafi hlotið menntun og próf í viðurkenndum fræðum um áfengis- og vímuefnameðferð, auk starfsreynslu á því sviði. Þetta snýst því ekki um þann sem er ráðgjafi heldur sjúklinginn.

Löngu er tímabært að sett verði lög um kröfur til þeirra sem vilja kallast áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stjórn FÁR hefur árum saman óskað eftir samvinnu um slíka lagagerð. Eitt af fyrstu verkum FÁR eftir stofnun félagsins 1994 var að óska eftir viðræðum um útgáfu starfsréttinda til félaga sinna.

Nýlega birti SÁÁ tölur úr sjúklingabókhaldi sínu og um umfang starfsemi sinnar. Þetta er árlegur viðburður og hefur verið gert með svipuðum hætti áratugum saman. Þannig er hægt að sjá í þessum tölum breytingar sem eru að verða á neyslu vímuefna. Hvaða efni eru að koma inn ný og einnig breytingar á umfangi eldri efna. Tölur þessar eru ekki kannanir heldur beinharðar upplýsingar um það hversu margir þurfa að leita sér aðstoðar vegna hinna ýmsu efna. Allt er skráð þannig að hægt er að skoða neyslu hvers efnis út frá kyni og aldri neytandans. 

Meðal annars má sjá í þessum nýju tölum að vaxandi fjöldi þarf að leita inn á Vog vegna lyfjafíknar. Með öðrum orðum þá eru fleiri og fleiri að koma inn á Vog til að afeitrast vegna neyslu lyfja sem eru ávísuð af læknum. Sem áfengisráðgjafa hlýtur það að vera mér umhugsunarefni þegar vaxandi fjöldi fólks þarf að koma inn á Vog til afeitrunar vegna lyfjafíknar. Það er umhugsunarvert fyrst og fremst vegna þess að hluti af þessum vanda er heimatilbúinn.

Þrjár meginleiðir eru til þess að verða háður róandi ávanalyfjum. Ein þeirra er að gæta ekki að ávanahættu þessara lyfja þegar þau eru notuð við kvíða eða svefnleysi. Fullorðið fólk er í mikilli hættu varðandi þessa leið og mikill fjöldi leitar til SÁÁ, af þessum ástæðum. Vandinn birtist þá þannig að fólk er að detta og slasa sig eða er orðið mjög sljótt og viðutan. Aðstandendur koma gjarnan og eru ekki vissir um hvað er að, hvort um byrjandi heilabilun er að ræða eða hvað. Önnur leið er að nota lyfin endurtekið til að komast í vímu af þeim með eða án annarra vímuefna. Það eru einkum konur sem eru í þeim hópi og eru þá gjarnan með marga lækna á sínum snærum. Lífið snýst þá meira og minna um það að eltast við lækna og verða sér úti um lyf. Dæmi eru um einstaklinga sem eru með tugi lækna sem leitað er til. Þriðja leiðin er að nota þessi lyf til að slá á fráhvörf vegna annarra vímuefna. Stærstur hluti þeirra fíkla eru stórneytendur örvandi efna. Nota þeir þá lyfin til að ná sér niður af örvandi efnum eða til að slá á geðveikiseinkenni eftir slíka neyslu. Hver svo sem leiðin er, þá verða þessir einstaklingar mjög háðir lyfjunum og fara í mikil fráhvörf þegar neyslu þeirra er hætt. Lífhættulegt ástand getur skapast við þessar aðstæður. Engin leið er að afeitrast og hætta á þessum lyfjum nema á sjúkrahúsi undir læknishendi.
Morfínfíkn er þrálát og ill viðureignar. Áfengisráðgjöfum og öðru meðferðarfólki hefur verið það ljóst lengi. Lengi vel voru meðferðarmöguleikar ekki miklir og árangur lítill hjá þeim sem ánetjuðust morfínefnum. Miklar framfarir hafa orðið hin síðari ár hvað varðar möguleika þeirra, sem eru háðir ópíumlyfjum eða morfíni, að ná árangri. Þar ber hæst lyfjameðferð sem fer fram samhliða félagslegri endurhæfingu. Meðferðin er í daglegu tali nefnd viðhaldsmeðferð. Viðhaldsmeðferð felst í því að sjúklingurinn fær lyf sem halda frá fíkn og fráhvörfum þannig að endurhæfingin geti hafist. Einstaklingurinn er ekki í vímu og getur tekið þátt í vinnu og námi. Þessi lyf eru gefin undir eftirliti hjúkrunarfólks og lækna. Stór hópur fólks sem er í þessari meðferð, er í dag að ná árangri í fyrsta sinn og sumir þeirra eru starfandi og hæfni þeirra vex dag frá degi. 
Sem fagmaður tók ég þessari nýju meðferð með eðlilegum fyrirvara. Þannig var um flesta sem vinna af ábyrgð og festu að vímuefnalækningum. Með árunum fjölgar rannsóknum sem sýna að þetta er besta og öruggasta leiðin sem til er í dag. Þeir sem fá þessa meðferð deyja síður en þeir sem fá hana ekki. 

Höfundur er dagskrárstjóri hjá SÁÁ og hefur starfað sem áfengisráðgjafi í 18 ár

Viðhaldsmeðferð eins og hún er stunduð á Vogi er eitt mesta framfaraspor sem orðið hefur í lækningum ópíumfíkla sem nánast voru vonlausar áður. Tugir einstaklinga eru í dag í bata og í framför. Þessir einstaklingar og fjölskyldur þeirra eru í dag að öðlast von um nýtt og innihaldsríkt líf. Það er því sorglegt að vita til þess að ekki fáist nægjanlegir peningar til þessarar meðferðar og að takmarka þurfi aðgang þeirra sem þurfa á þessari meðferð að halda.